Heiðarleg stjónmál

Það vita það allir sem kæra sig um að vita það, að Ísland er ekki laust við spillingu. Við sem erum eldri en 30 og höfum fylgst með stjórnmálum, sjáum það alveg að stjórnmálamenn hafa verið leiðitamir og undir hælnum á stórfyrirtækjum, hvort sem þau voru undir stjórn ríkis og bæja eða einkarekin. Flokkarnir fengu mikinn pening frá hægri og vinstri til að geta rekið flokkana. Svo er það hreinlega spurning hvað margir af þeim hafa fengið pening inná einkareikning sinn sem aldrei hefur verið gefið upp.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að þetta hafi verið skipulögð starfsemi en ásetningurinn er stundum ljósari í málinu en góðvildin eða greiðasemin, þegar styrkur (eða mútur) er greiddur til flokka eða einstaklinga innan þeirra. Hvenær er styrkur styrkur og hvenær verður hann mútur? Ég tek það fram að notkun á hugtakinu mútur í þessari grein er miðað við þá óeðlilega háa styrkgreiðslu til flokks eða einstaklings. Einstaklingar í t.d. prófkjörum hafa rekið baráttu sína á "eigin" reikning, þó að þeir fái eitthvert fjárframlag frá móðursamtökunum, það vita allir sem kæra sig um.

Nú er svo komið að fjórflokkarnir standa í stríði út af fjárframlögum frá fyrirtækjum. Nýlegt dæmi sýnir þó að þessar styrkveitingar gengu út fyrir allt viðurkennt "velsæmi" miðað við þann tíðaranda sem virtist viðgangast í þjóðfélaginu þá. Í fréttum í gær kom fram að þær tölur sem koma hafa fram frá skrifstofu Valhallar, Samfylkingunni, Framsókn og Frjálslyndum, miðast eingöngu við móðurstöðvarnar, þá á eftir að taka saman frá hinum ýmsu félögum úti á landi. Og þá er ekki verið að tala um styrkveitingar vegna prófkjörsbaráttu á milli manna í sama flokki.

Þessi umræða er löngu orðin tímabær og þess vegna finnst mér það vera einkennilegt að Bjarni Ben og félagar vilja reyna að eyða málinu með því að segja að nær væri að einblína á þau mál sem skipta máli í komandi kosningum, þ.e. vandamál heimilanna og fyrirtækja og hvernig það á að endurreisa hagkerfið aftur (sem þeir bera að vísu ansi stóra ábyrgð á).
Því segi ég; Það skiptir miklu máli að við vitum hvort að stjórnmálaflokkarnir ætli sér að stunda heiðarlega kosningabaráttu. Ég mun allavega ekki styðja þann flokk sem ætlar sér ekki að koma með þá siðferðilegu endurreisn í íslenska pólitík og ég mun ekki styðja þann flokk, sem vill með smjörklípuaðferð beina sjónum fólks í aðra átt. Það kalla ég óheiðarleg stjórnmál.
Bara til að halda "kúlinu".

Svo til að árétta það að það er mikill munur á 5 millj. króna styrkveitingu til stjórnmálaflokks frá stórfyrirtæki eða 20 eða 30 millj. frá einu fyrirtæki handa einum stjórnmálaflokki. Sama hvað flokkurinn er illa staddur fjárhagslega. Og þá er ég kominn að hinu atriðinu sem vefst mjög mikið fyrir mér þessa dagana.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðin talið okkur trú um að hann væri eini flokkurinn á landinu sem væri treystandi fyrir fjármálum. Hann einn væri ekki að eyða um efni fram, hann einn þekkti fjármálaumhverfið, hann einn ætti að vera með forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti osfv.
Hvernig stendur þá á því að svona flokkur, vel að sér í hvernig best væri að ráðstafa skattpeningum landsmanna, hafa talað um sparnað í ríkisútgjöldum og að menn ættu að bera ábyrgð á sínum fjármálum, geta sett einn flokk í þvílíkar skuldir, að hann þurfi að fara út í svona fjáröflunarleiðir að þær fari út fyrir öll siðferðismörk? Og sett flokkinn á "hausinn"?

Er þeim flokki treystandi fyrir mínum skattpeningum?

Ekki frekar en ég myndi treysta "gömlu" bönkunum að ávaxta mína peninga!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Jóhannsson

Um leið og Bjarni Ben hóf að sverta málfluttning fjölmiðla í þessu máli þá sannfærðist ég um að það er rík þörf á að kafa dýpra.  Þar sem er reykur þar er eldur.

Kristján Jóhannsson, 16.4.2009 kl. 12:16

2 Smámynd: Bragi Einarsson

Nákvæmlega, þetta kallast líka smjöklípuaðferð. Fyrrfyrrverandi formaður flokksins upplýsti einmitt þjóðina hvernig hún virkar!

Bragi Einarsson, 17.4.2009 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband