21.8.2008 | 17:42
Paradísarheimtur
Strax og þegar við fjölskyldan fluttum á nýja staðinn, Kjóaland, finnst mér ég hafa heimt paradís aftur! Þannig er að ég er nánast fæddur og uppalinn í Út-Garðinum og er þetta fjórði staðurinn hér á sama blettinum (eða því sem næst) þar sem ég bý. Út um borðstofugluggann sé ég móta fyrir staðnum, Akurgerði, þar sem ég vætti bleyjur og sleit barnskónum í túnfætinum. Aðeins utar sést í húsið, Blómsturvelli, þar sem ég bjó frá 10 ára aldri og þar til ég var 17 ára plús, (en þá flutti ég að heiman) og fyrir neðan veg sé ég húsið út um eldhúsgluggann, Urðarfell, en þar átti ég svo heima frá 86-93, en þá flutti fjölskyldan á Lyngbrautina. Og nú er hringnum lokað.
Okkur líður ákaflega vel hérna og fyrstu vikuna fannst okkur eins og við værum í sumarbústað. Engar gardínur fyrir gluggum, enda engin þörf á, þar sem út um stofugluggann er bara heiðin og náttúran. Út um eldhúsgluggann eru um 500 m í næsta hús, þannig að það tekur engin eftir því þó að maður er að væflast um á sprellanum á morgnanna. Engin bílaumferð (nema þeir sem eru að forvitnast, ca. einn bíll á viku) þar sem við erum endahús og í botnlanga og er það mikill munur á að búa á hornlóð og hús nr. 2.
Í vor spurðu vinir og gestur um hvort að krían væri ekki að gera okkur vitlaus af garginu, en kríugarg er það dásamlegasta hljóð sem ég heyri, sérstaklega ef miðað er við skellinöðru-ó-hljóð og aðra bílaumferð. Því miður klikkaði varpið hjá þessari elsku og hún var farin úr heiðinni allt of snemma og er fæðuskorti kennt um.
Þeir sem til þekkja til Út-Garðsins vita alveg hvað ég er að meina, þegar ég segi að með því að flytja hingað hafi ég heimt Paradís aftur.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
til hamigju með að vera komin á staðin sem þér finst bestur
Margrét M, 26.8.2008 kl. 10:23
Til hamingju með nýja heimilið..ja eða kanski gamla...þannig séð...
Agný, 27.8.2008 kl. 02:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.