Færsluflokkur: Bloggar
27.4.2006 | 10:51
Sumar og sól
Jæja, þá er bara að koma sumar og sól með blóm í haga og allt, flensufuglarnir farnir að vappa í heiðinni, garðeigendur klippa tré sem óðir væru og snurfusa hjá sér ytri híbýli fyrir sumarið. Prófin að byrja með tilheyrandi prófskrekk og skemmtilegheitum, dimmetering út um borg og bý, þar sem sjá má oft skrautlega búninga og oft kostulegar sýningar þar sem framhaldskólanemendur gera góðlátlegt grín af kennurum sínum. Sjálfsagt eru margir farnir að skipuleggja hjá sér sumarfríið, eflaust margir búnir að því fyrir löngu, þeir sem vilja flakka um sveitr landsins búin að ákveða hvert á að fara þetta árið, vestur, norður, austur og lengra austur (sko, fyrir þá sem búa á Reykjanesskaganum fara nefnilega ekki í suður, nema með flugi) Tjaldvagnar og fellihýsi dregin fram og viðruð, sílíkomsprautuð, sumarbústaðir teknir á leigu eða að fólk flytur búferlaflutningum í sumarbústaði sína, þeir sem þá eiga. Hinir halda í víking, sólarferðir, (aldrey skilið hversvegna íslendingar fara til sólarlanda á besta tíma ársins á landinu bláa) rútuferðir um Evrópu eða Kananda, eða styttri ferðir til norðurlanda og langar ferðir á framandi slóðir. Landinn er hreinlega alltaf á ferðinni, stoppar aldrei, eins og krían, stoppar stutt við á hverjum stað, svo er flogið upp. Ég held þó að margir hugsi sér tvisvar um, þegar ákveðið er að keyra um sveitirnar, bensínverð fer hækkandi og hefur hækkað nóg síðustu vikur, það verður dýrara að keyra sömu vegalengd en í fyrra. En hvort að hækkandi bensínverð hafi einhver áhryf á þetta veit ég ekki. Hingað til hafa íslendingar látið sem ekkert væri og tekið öllum hækkunum þegjandi og hugsa að þetta sé gjaldið fyrir að búa á Íslandi. Ekki ætla ég að fjasa meira út af því, ætla að halda mér heima við í sumar, því heima er best, að vísu á að þvælast með mig til Danmerkur í sumar í heimsókn og allt í lagi með það, en flakk um landið læt ég eiga sig alfarið þetta árið, mesta lagi ein ferð í sveitina til mömmu og læt þar við sitja.
Gleðilegt sumar og farið varlega í umferðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2006 | 14:51
Evran-Krónan?
Í þó nokkurn tíma hafa menn verið að velta því fyrir sér hvort að heppilegt sé fyrir íslendinga að ganga í Evrópusambandið og taka þar með upp Evruna sem gjaldmiðil. Hafa komið fram rök með og á móti. Þeir sem helst eru á móti, segja að þá missa íslendingar sjálfstæði sitt og krónuna. Hinir vilja meina að með inngöngu væru íslendingar orðnir samhliða Evrópubúum hvað lífskjör varðar og það verði jafnræði á milli þjóðanna. Að vísu opnuðust markaðir, innflutningur á kjeti og öðrum landbúnaðarvörum myndi aukast og verð lækka. Þeir sem mæla þessu mót nota hræðsluáróður og bera fyrir sig sjúkdóma og annan ófögnuð og það komi ekki til greina að leyfa óheftann innflutning, slíkt myndi skaða íslenskann landbúnað. OK, hvað er íslenskur landbúnaður? Lambaket? Grænmeti? Ull? Hm, laxaeldi? Þetta er bara tittlingaskítur miðað við það sem verið er að framleiða í kringum okkur. Vissulega eru þetta úrvalsvörur, ekki dreg ég það í efa, en dýr er Hafliði allur, ef eingögnu ætti að styðjast við innlenda framleiðslu. Hver man ekki eftir styrkjakerfinu, kjöt- og smjörfjallinu fræga, sem var að leggja skútuna á hliðina, vegna þess að gamlir framsóknarmenn voru að verja hagsmuni örfárra manna í þjóðfélaginu, landinn varð bara að éta það sem að þeim var rétt. Og verðbólguna?
Ég er nokkuð viss um að íslendingar væru betur settir ef gegnið væri í ESS og Evran væri okkar gjaldmiðill, það er margt sem myndi ávinnast með því. Fyrir það fyrsta væri það stöðuleikinn, þessi sem Haldór og félagar eru alltaf að tala um, nema að það væri meiri stöðuleiki fyrir almenning, ekki bara nokkra vel valda úr þjóðfélaginu. Einnig ætti að leggja niður verðtryggingu lána og samræma vexti við það sem er í nágrannalöndum okkar. Síðasta gegnisfall krónunnar hafði það í för með sér að almennur lánagreiðandi tapar stórfé, sérstaklega vegna þeirrar stefnu að bjóða uppá 100% lán til íbúðarkaupa, hin gengdarlausu útlán bankanna varð til þess að þjóðin er meira skuldsett en áður.
Afnám verðtryggingar lána yrði mesta launabót, sem við gætum fengið, hinir sem eiga peningana eru hvort sem er farnir með þá alla úr landi, kvótin í eigu örfárra einstaklinga, svo að ekki myndi það skipta sköpun. Það er sama hvert litið er, allstaðar er verið að láta okkur borga allt of mikið fyrir allt, mat, bensín, bíla, varahluti og fatnað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2006 | 15:23
Varnir landsins -er lausnin fuglaflensa eða hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2006 | 10:45
Blogg-manía!
Það virðist vera endalaust hægt að búa til ný og ný blogg svæði fyrir landann. Enda kannski ekki furða, frá þjóð sem hefur skrifað á skinn frá landnámi, reyndar bara nokkrir úvaldir karlar, því að ekki þótti það þorandi að láta almúgann læra að lesa og skrifa, fyrr en í upphafi 20. aldar eða svo. Fram að því voru það bara prestar og dindilmenni, sem þóttust eiga landið skuldlaust og einstaka sérvitringur, sem lærði á bókina upp á sitt einsdæmi og var kallaður letingi, sem nennti ekki að vinna baki brotnu fyrir einhvern annann.
Þannig að með nýrri tækni og ?betri? tímum, geta nú hver sem er sagt sína skoðun og meira en það, það þarf ekki endilega að vera neitt vit í því sem þeir eru að skrifa um. Bara láta það flakka sem því býr í brjósti og ekki einu sinni að nota rétta stafsetningu, nota styttingar og skammstafanir. Bíðið nú við! Voru ekki einmitt skinnkrotararnir að nota stittingar og skammstafanir á skinnin, bara til að spara pláss? Eða voru það kannski bara útlenskir munkar sem föttuðu uppá því snemma á miðöldum og íslenskur almúginn rétt farin að fatta "trixið" í upphafi 21. aldar?
Nei, reyndar ekki. Það væri fullgróft að halda því fram. Auðvitað erum við mest og best og erum fljótust allra þjóða að tileinka okkur ný tækni, erum nú þegar meðal þeirra fremstu í netnotkunn, miðað við þessa frægu höfðatölu, svo að það er ekkert skrítið að forfeður okkar hafi slátrað slatta af kálfum til að skrifa á skinnin, annað eins hefur nú verið gert í þágu tækninnar og framþróunar.
Samt vil ég óska Bloggurum til hamingju með þetta nýja svæði til að tjá sínar hugsanir og vonandi halda notendur sig einmitt innan þeirra marka, að tjá sínar hugsanir á vitrænan og gagnrýnin hátt, skilurru!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)