Lokasmiðshöggið

Jæja, þá er nýtt þak og nýr kassi komin á húsið og búinn að bera á kassann líka! Samtals hefur þessi vinna tekið 3 heila daga og geri aðrir betur, eða þannig! Þarf bara fyrir haustið að setja flasningar á þakið og þá get ég sofið rólegur í rokinu í vetur. Þegar kassinn var rifinn, var tekin ákvörðun að skipta yfir á Símann með sjónvarpið, enda var örbylgjan eins og alkul stundum við ákveðin veðurskilyrði. Allt annað líf núna, þarf bara að skila Digital afruglaranum. Gamla loftnetið er komið í skúr og ef einhverjum vantar örbylgjuloftnet, látið mig vita.

Sýningin hefur gengið mjög vel, búinn að selja 8 myndir, bara góður árangur það, þykir mér. Núna er ég að dunda mér á nýja staðnum og er þegar farinn að skipuleggja alveg nýja línu í málverkinu, hættur að mála gamla kofa nema eftir pöntunum!

Dóttir mín og vinkona hennar hafa gert víðreisn undanfarnar vikur, flakkað á norðurlöndum, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Slóveníu og Þýskaland. Og hvar haldið þið að þær eru núna? Í grenjandi rigningu á Hróaldskeldu! Þær gáfust reyndar upp á því að liggja í tjaldi og tóku nokkrar sig saman og tóku á leigu tvö herbergi í Köben og flakka um með lest á milli, enda ekki nema hálftímaferð með lest frá Köben til Hróaldskeldu. Vonandi fer nú að hætta að rigna, enda er allt á floti þarna, vatn og drulla upp á miðja kálfa og hvergi hægt að tilla sér til að hlusta á tónleika. Öll stígvél á Sjálandi seldust upp á hálfum degi, pollagallar, ponsjó líka! Dísess, þá segi ég nú bara, heima er best, enda búið að vera Kosta del veður hér á klakanum í 4 vikur samfellt, á meðan allt er á floti í Evrópu. En það er víst byrjað að dropa hérna á Suðurnesjum, en ekkert í líkingu við þarna í Danmörku.


Sólseturshátíðin

Vá, mar! Aldrei hefur maður upplifað aðra eins veðurblíðu og var um helgina á Garðskaga á Sólseturshátíð. Strax á fimmtudeginum voru komin fellihýsi og tjöld og á föstudeginum streymdu inn húsbílar og hjólhýsi svo að tjaldsvæðið var nánast fullt. Sýningaopnunin tókst bara vel, um 3ö gestir skráðu sig í gestabókin á tveim tímum og þegar ég taldi í dag, hafa um 300 manns skráð sig í gestabókin. 7 myndir seldar af 20, bara nokkuð gott á fyrstu tveim dögum! Og hálfur mánuður eftir Smile

Hátíðin tókst í alla staði vel, smá tæknileg vandamál með CD-spilara og þess háttar en ekkert sem ekki er hægt að laga næsta ár. Ef ég ætti að skjóta á gestafjölda sem fóru um svæðið þessa helgi, þá hafa gestir verið vel á 4 þúsundin, og þeir sem voru allan tíman, þ.e. tjaldbúar, um 700. Heimamenn voru duglegir að tjalda, en kannski ekki allir sem gistu kannski, enda stutt heim í hlýtt rúm, en slatti var það sem sat úti um nóttina í blíðunni, sungu og trölluðu. Og vitið þið bara hvað? Það var engin önugur nágranni sem vældi yfir því að geta ekki sofið fyrir söng og gleðskap, eins og maður hefur upplifað á hinum "stærri" tjaldsvæðum landsins. Ég setti nokkrar myndir inn á Myndaalbúm undir Sólseturhátíð 2007, ef þið viljið skoða.
Það var einhver gestur í stríðnispúka kasti, því að í gærkveldi þegar ég kom aftur á svæðið eftir grillið heima, tók ég eftir því að ein myndin var horfin af veggnum!!! Ég gjörsamlegast trompaðist, því að það kom einmitt fyrir í fyrra að einhver óprúttin aðili hreinlega stal einu tréskurðarverki og hefur aldrei sest síðan á almannafæri. Ég lét vertann vita og stúlkuna í afgreiðslu Byggðarsafnsins, en hún sagði að allt væri tekið upp og hægt væri að skoða upptökur eftir helgina. Mér leist ekkert á málið. Þar sem ég stóð fyrir frama auða svæðið, þar sem myndin átti að vera, datt mér í hug af einhverju rælni að kíkja í kompu þarna við hliðina og viti menn! Var ekki myndina þar stillt upp við vegg ofan á frystikistu!! Sjúkkitt, mar!
Jæja, allir skemmtu sér vel og lokaatriði hátíðarinnar var svo brenna um kl. 10:15 og logaði nokkuð glatt í timbrinu eitthvað fram eftir nóttu. Sólarlagið var fagurt og frítt og engin áföll, nema hjá þeim sem létu taka sig fyrir of hraðan akstur í gegnum bæinn!
Þeim var nærDevil


Bakverkir og pungsveittur!

Jæja, við feðgarnir höfðum það af í kvöld að flytja allt dótið úr gömlu vinnustofunni og í þá nýju. Þvílíkur munur verður þetta, ha! Helmingi stærra pláss. Smá óskostur eins og er, því að flutningur fyrirtækisins sem var í húsinu brá svo skjótt að að þeir eru ekki búnir að þrífa almennilega eftir sig, þannig að það er smá saltdaunn yfir öllu en það er til bóta, en það var unninn saltfiskflök í húsinu. En kaffistofan er fín, flísalagt gólf og fínt. Ég byrjaði á því í morgun að sópa og skúra og aðeins að þrífa mesta skítinn áður en ég færi að bera inn draslið mitt og þvílíkt drasl getur fylgt manni, ég legg ekki meira á ykkur! Enda var líka gott að koma heim og fara í góða sturtu eftir allan svitann Cool En ég verð víst að fjárfesta í hillum undir bækur og annað dót.
Næstu dagar og vikur fer í það að raða öllu upp áður en maður getur hreinlega farið að vinna í myndum aftur. Enda er það allt í lagi, sýningin mín er tilbúin, set hana upp á föstudagsmorgun. Það ætti að duga. Verð svo að hlaupa heim í sturtu og gera myndalista, því að ég vil hafa listann í númeraðri röð, eins og ég hengi upp myndirnar. Finnst stundum leiðinlegt að koma á sýningar þar sem númerin eru "hist og her".

Seinni partinn í júlí fer ég og mín spúsa (og gaurarnir auddað) til Súðavíkur og verðum þar í viku. Okkur áskotnaðist íbúð þar til leigu í viku og á áætlun er að keyra svolítið um og taka myndir. Auðvitað verður vatnslitablokkin og eða pastellitirnir með í för, því ekki nenni ég að draga með mér olíulitina. Fer allt of mikið fyrir þeim. Reyndar er það draumur minn að eignast góðan ferðabíl, rútu, sem ég get haft svefnaðstöðu og vinnuhorn, þar sem ég get verið að mála. Fínt að hafa frúna með til að laga kaffi og svoleiðis, hahaha! Ég sá einhverstaðar svona bíl þar sem eigandinn var búinn að innrétta bílinn þannig að aftast gat hann staðið við trönur eða setið við borð og málað það sem hann sá út um stórann glugga aftast á bílnum. Miðsvæðið var svo svefnaðstaða og eldunaraðstaða, kamar og flott. Maður þarf eiginlega meirapróf til að fá að keyra svona bíl.

Það er gert ráð fyrir bara góðu veðri næstu helgi og vonandi gengur það eftir. Hundleiðinlegt að halda útiskemmtun í roki og rigningu.

Þar til næst. 


Þó það sé...

... heil vika í Sólseturhátíðina, er aldrey of snemmt að minna á hana. Sjálfur er ég að bregða mér á Snæfellsnesið um helgina, en samkvæmt veðurspá MBL þá verður heitast og besta veðrið þar um helgina.

51083_VF-04_700_942

 


Styttist í ...

...sýningu. Þá er rétt rúm vika í að sýningin opni og verður hún í tilefni Sólsetursdaga í Byggðasafninu á Garðskaga þann 29. júni til15. júlí. Ég hef verið að hamast við að gera myndirnar klárar og er jafnvel með myndir á trönunum sem hugsanlega fara á sýninguna ef þær takast vel. Um helgina ætla ég að leggja veg undir degg og bregða mér á Snæfellsnesið í sveitasæluna hjá henni móður minni og anda að mér kúamykjufílu og öðru sveitalofti! Eftir helgina mun ég setja í myndaalbúm þær myndir sem verða á sýningunni. Ykkur er auðvitað formlega boðið Wink.

En hvað er Sólseturshátíð eiginlega, kann einhver að spyrja? Þannig er mál með vexti að það er ekkert bæjarfélag félag með öðrum félögum nema halda veglega bæjarhátíð og er Sólseturshátíð tilraun okkar Garðmanna til að halda eina slíka. Þetta er þriðja árið sem hún er haldin og tvö síðustu ár hefur hún verið í ágúst (það kemur skýringin á nafninu) en vegna þess hvað almættið skaffaði mánuðum svo fáar vikur til að halda hátíðir, þá var tekið sú ákvörðun að færa okkar hátíð fram í júní, í kringum Jónsmessu, frekar en að keppast við þær hátíðir sem eru í gangi í ágúst, s.s. Verlunarmannahelgi, Fiskidaginn mikla, Gay-Præde, Menningarnótt og fl. minniháttar veislur Cool

Liggja nefndarmenn með liðónýt hné á bæn og óska eftir góðu veðri þessa helgi en eins og landsmenn vita geta veðurguðir átt það til að demba á mannskapinn vætu, bara svona uppá grín, eins og að minna aðeins á sig. Undanfarna daga hefur nefnilega verið sæmilega gott veður, hlítt og notalegt og voru menn í morgun vongóðir um að þarnæsta helgi verði bara þokkaleg, fyrst hann ætar að fara að rigna þessa helgi!

Lesa má um dagskránna af þessari margrómuðu hátíð á vef bæjarfélagsins, www.sv-gardur.is en væntanlega fer ný dagskrá að detta inn hvað úr hverju. Hvet ég alla sem lesa þetta blogg, eiga heimangengt og langar til að eiga góðann dag með fjölskyldu sinni, að bregða sér suður með sjó og skemmta sér við góða dagskrá. Þarna verður full um að vera fyrir börnin og tónlistaratriðu um kvöldið. Vil ég einnig minna á að það er ókeypis á tjaldsvæðin og KK er með tónleika á föstudagskvöldinu í Samkomuhúsinu þann 29. júní.

Jibbíííí


Það má rigna...

...eldi og brennisteini, því kallinn er bara búinn að setja nýtt járn á "skúrinn"! Grin Gamla járnið var frá því ´73 og var sko löngu kominn tími á báruna að fara á haugana og smiðirnir voru vissir um að það væri allt ónýtt undir, en viti menn, það sá ekki á gamla pappanum og timbrið eins og það hafi verið lagt í gær. Þeir voru 6 og byrjuðu að rífa gamla járnið af kl. 8 í gærmorgun og búnir að negla það nýja á og kjölinn á slaginu kl. 17:00 sama dag! Þá er eftir að endurnýja kassann og setja flasningar til að loka öllu. Svo að endurnýja glerið. Svo að endurnýja eldhúsið! Gólfefnin! Allt! Crying Ég er fluttur úr landi! Ég sé fram á það að það þurfi að endurskoða Íbúðralánasjóð og auka lán til endurbóta á gömlum húsum ef ég á að geta klárað þetta fyrir fimmtugt! Jæja, en járnið er komið á, ligga, ligga lá!

Í mörgu að snúast...

...þessa dagana, og ekki verið mikið að eyða tíma í blogg á meðan. Frá því ég koma að utan, hef ég meira og minna bundið mig við strigann, enda er sýning hjá mér þann 29. júní á Sólseturshátíð í Garðinum og margt þarf að gera áður en sá dagur rennur upp. Ég er nokkuð ákveðinn hvaða myndir ég verð með, sýningarstaðurinn er ekki stór en gæti rúmað um 12 - 15 myndir. Svo er ég með eina á trönunum sem ég ætla að reyna að vera með á sýningunni og er ég langt kominn með hana, sjá bara svo tíl hvort að hún verður tilbúin í tíma. Það þarf að setja festingar aftan á myndirnar og merkja þær flestar, áður en ég set þær upp og útbúa nafnspjöld til að hafa á staðnum, því að sýningin verður opin í hálfan mánuð hið minnsta og óþarfi að ég sé hangandi yfir henni allan tímann.
Strax eftir að sýningin opnar mun ég síðan pakka niður málaradótinu mínu og flytja mig í annað húsnæði. Núverandi eigandi hússins sem ég er í, þarf að nota herbergið en bauð mér í staðin stærri og rúmbetri aðstöðu, með möguleika á að hafa smá sýningaraðstöðu og með glugga í norður! Það þýðir það að ég get verið að mála þótt svo að sólin sé að glenna sig, en þannig var það í hinu húsnæðinu að ef það er sól, var ekki verandi í húsinu vegna hita!
Þetta verður mikill munur á aðstöðu, þó að ég hafi verið nokkuð ánægður með gamla staðinn, á ég eftir að garga af ánægju með þann nýja. Segi ykkur nánar frá Artboy Gallery þegar nær dregur!

Þar til næst. 


Það er sem ég segi...

...að maður bregður sér út fyrir landsteinanna í smá tíma og það hefur gjörbreyst landslagið þegar mar kemur heim aftur. Í síðustu færslu tala ég um að Jón sé út í kuldanum og mikið helv... var ég sannspár, þó svo að ég hafi verið að meina það í annarri merkingu. Enda varð ég steinhissa (og þó) að lesa um það í fréttablöðunum að mjólkureftirlitsmaðurinn úr Flóanum hafi loksins fengið hið langþráða embætti og tekið að sér formennsku Framsóknarflokksins! Verði honum að góðu!

Annars er úr ferðinni að segja að Helsinki rokkar og Tallinn einnig, en mikið finnst mér miðborg Köben vera orðin skítug og subbuleg. Og liðið þarna á torginu á nóttunum. Það var ráðist á okkur, einn sleginn niður og aðsúgur gert að einni konu í hópnum. Enda var okkur bent á það að vera ekki að þvælast á Torginu eftir miðnætti á kvöldin og þá er átt við ÖLL kvöld vikunnar, ekki bara um helgar. Sukkið er mikið á þessu svæði og hótelið sem við vorum á var staðsett á Ráðhústorginu. Ég var líka feginn að verra kominn heim í gærkveldi, rosalega feginn!


Hvað svo...?

Jæja, Jón úti í kuldanum, farinn í fýlu og Ingibjörg inni og VG sýna tennurnar yfir þessum stjórnarmyndunarviðræðum. Það var dálítið fyndið að sjá Sif setjast í stól stjórnarandstæðing í Íslandi í dag í kvöld, virkilega fúl út í Geir að hafa tekið Samfó fram yfir Framsókn en svona er pólitíkin. Maður bíður bara spennur yfir því hvernig ráðherra uppröðunin verður og að hvaða samkomulagi flokkarnir gera sín á milli. Verður ESB skoðað? Hvað með virkjanaáform? Hvað með vexti og verðbætur? Hvað með sjávarútveginn og heilbrigðiskerfið? Jæja, maður segir nú bara, Hvað svo?

En ég er að fara til Helsinki á sunnudag og mun þar af leiðandi vera hálfsambandslaus þar til 29. maí. Þegar komið verður til baka mun ég hella mér út í að undirbúa sýningu sem verður á Flösinni í Byggðarsafni Garði þann 29. júní - 15. júlí í sumar. Ykkur er formlega boðið, Bara að skrá ykkur í gestabókina. Kannski að kaupa eina mynd. Annars mun ég setja myndir afmálverkunum inná myndaalbúmið mitt áður en langt um líður svo að þið fáið smá nasaþef (hehehe, nasaþef, hvernig er það hægt í gegnum tölvu?) að því sem verður til sýnis.

Hittumst síðar eftir rúma viku og farið varlega á meðan. 


Þetta vill Íhaldið

Eða allavega hafa þeir talað í átt að bandaríska módelinu í heilbrigðismálum. Einkavæða allt og leggja niður almannkerfið. Ég hef allavega ekki skilið annað á tali þeirra s.l. ár.

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1269623

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband