Af "áhugamanna" listaheimi

Það er margt að gerast í listaheiminum þessa dagana, þ.e. hér á Suðurnesjum. Mönnum er minnugt þegar Baðstofan var stofnuð fyrir allmörgum árum síðan í gömlu Keflavík, af áhugafólki um listmálun og teiknun og margir sem þar tóku þátt í, enn starfandi við áhugamálið sitt. Svo lá smá doði yfir þessu öllu saman, enda vantaði líka smá opinberan stuðning við þessa "pennslaskvettara" eins og gamall kunningi minn orðaði það réttilega hér um árið. Með því framtaki að stofna síðan myndlistafélag, þar sem takmarkið var að víkka út þá starfsemi, sem hófst með Baðstofunni, má segja að næsta skrefi hafi verið tekið. Þar fengu menn inni í beitningaskúrum í gömlu HF, sem gengur undir heitinu Svarta pakkhúsið (svarta pakkhúsið stóð víst þarna á þessum reit í gamla daga) og með mikilli vinnu og stuðningi fyrirtækja og bæjar, var hægt að gera það húsnæði að því sem það er í dag. Á neðri hæð er aðstaða til námskeiða og kennslu í málun og teiknun og í gamla frystiklefanum er gallerí Svarta pakkhússins. Reyndar er til sölu þar fleira en bara málverk, glerlistafólk og handverksfólk hefur þarna möguleika á að selja afurðir sýnar. Aftur á móti er efri hæð hússins í frekar döpru ástandi, léleg kynding og einangrun, gluggalaust og engin gólfefni. Þar væri hægt með tiltölulega litlum tilkostnaði að stórbæta kennsluaðstöðu Myndlistafélagsins og bjóða uppá fleiri námskeið. Langflest þeirra námskeiða sem haldin hafa verið, hafa verið fjölsótt og vil ég nefna það að ég er einmitt þátttakandi í einu námskeiði með listamanninum Einari Hákonarsyni. Í einni kaffipásunni hafði hann einmitt orð á því, hvað myndlistaáhugi væri mikill á svæðinu (sagði reyndar Keflavík, en ég bennti honum á að þessi áhugi væri ekki síðri annarstaðar á Suðurnesjum) en honum þótti nú húsnæðið vera frekar í döpru ástandi. Tek ég undir það með honum. Þessi aðstaða míglekur!
Held ég að tími sé kominn að bæjaryfirvöld fari nú að huga að því að gera eitthvað fyrir þetta áhugafólk í sínum bæ og komi þessari starfsemi í betra hús eða að minnsta kosti fari að laga þessa annars ágætu aðstöðu svo hægt sé að bjóða betri vinnuaðstöðu.
Í síðustu viku var stofnfundur Listatorgs í Sandgerði. Þar er að skapast fín aðstaða fyrir áhuganmenn í myndlist og þegar er á staðnum Ný Vídd, listasmiðja og Gallerý Gríti. Mun þarna verða væntanlega vinnuaðstaða fyrir listamenn og sýningaraðstaða. Sandgerðingar hafa verið duglegir að standa að baki sínu listafólki og eiga þeir þökk fyrir það og mega vera stoltir af.
Í Vogunum er starfandi Vogaakademían og nóg að gera þar, eitthvað er í gangi í Grindavík en mér er það ókunnugt í hvaða formi það er.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að svona starfsemi getur ekki eingögnu þrifist á viljanum einum saman, til þess þarf líka stuðning frá bæjaryfirvöldum. Má þar nefna vinnuaðstöðu eða vinnustofur fyrir listamenn, aðstaða þar sem fólk getur unnið í friði, en nýtt sér sameiginlega kaffi- og salernisaðstöðu, auk þess að hafa möguleika á að halda sýningar. Hefur manni oft verið litið á "gamla Völlin" í þeim efnum og Rockwille áður en hann var jafnaður við jörðu. Þar voru húsnæði sem passaði undir margvíslega starfsemi, ekki bara "pennslaskvettara", heldur líka til leiklistar, tónlistar og annarra listastarfsemi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Silja Dögg Gunnarsdóttir

Sæll og bless félagi. Þú ættir að senda þessa grein í VF....Um að gera að vekja meiri athygli á þessu máli! Kv. Silja

Silja Dögg Gunnarsdóttir, 14.10.2007 kl. 18:30

2 Smámynd: Bragi Einarsson

Silja, þetta er á VF blogginu líka!

Bragi Einarsson, 15.10.2007 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband