7.11.2007 | 17:18
Loksins-Ferðasaga
Þá er loksins komið að ferðasögunni frá Budapest. þó svo að liðið er á þriðju viku frá því ég fór, þá varð það nú svo að vikan eftir að ég koma heim, var allt á haus hjá mér í vinnu, svo lagðist ég í Pest, heilir 4 dagar þar og svo bara að vinna upp skammir eftir veikindi. Loksins get ég gefið mér tíma til að blogga smá og setja inn nokkrar myndir úr ferðinni.
Þar sem þetta var flug seinnipart föstudags og heimför var á hádegi á mánudag, fengum við hjónin ekki nema 2 heila daga út úr ferðinni. Komið var á hótelið um miðnætti á Ungverskum tíma (10 hér heima) svo að það var farið beint að sofa! En dagskráin næstu tvo daga var þétt skipulögð og var vaknað eldsnemma á laugardagsmorgun og morgunverður snæddur. Lá leiðin eftir allar kræsingar í jarðlest og stefnan tekin á listasafn eitt þeirra Budapesta, Museum of Fine Arts, en það er staðsett á Hetjutorginu Pest megin í borginni. Eyddum við þar einum 3-4 tímum og þáðum ferð með gömlum hippa frá LA sem var þarna að gæda um salina, þrælskemmtilegur kall, með tagl og alles. Fór hann með okkur í gegnum 19 aldar listina sem safnið átti. Nöfn eins og Corbert, Manet, Monet og fl. komu þarna við sögu.
Eftir listasafnið ætluðum við að finna búð sem ein vinkona mín sagði mér frá og fór nú dágóður tími í að finna út hvar sú búð var, en ástæðan fyrir því var sú að þessi tiltekna búð seldi vörur fyrir listamenn! Þrátt fyrir mikla leit fannst hún ekki, reyndar hefði það ekki skipt máli því að klukkan var orðin 5 þegar við loksins gáfumst upp. Þrátt fyrir það vorum við með fullt fangið af pokum, enda lenntum við á einhverri götu þar sem verðið var eins og á íslandi á 19 öld!
Um kvöldið var farið í siglingu á Dóná, matur, tónlist og söngur og vín, allt innifalið í ferðinni. Matur, vín og tónlist; 8 af 10 möguleikum; Söngur, ja eins og unga fólkið segir bara; Díöss kræst mæ God! Þvílíkir skrækir! Samt var þetta indisleg stund og komið heim á hótel um miðnætti og farið að sofa, því að um morgunin var áætlað að fara út fyrir borgna og skoða þorp þar sem handverks- og listamenn hafa komið sér fyrir og er vinsæll ferðamannastaður. Þar sáum við meðal annars örlistasafn, en þar var t.d. taflborð á títuprjónahausi og urðum við að skoða verkin í gegnum stækkunargler. Eftir skoðunarferð um þorpið fékk hópurinn sér að borða og auðvitað fengum við okkur ungverska gúllassúpu og þvílíkur réttur. Aldrei bragðað eins góðan graut um æfina. þarna fann ég svo verslun sem seldi málningavörur og verlaði mér slatta af penslum og litum.
Um kvöldið fór hópurinn á veitingahús þar sem boðið var uppá þjóðrétti og sígaunatónlist og verð ég að segja að verðlagning þeirra í Pestinni er stórskrítinn. Það sem ég og frúin borguðum fyrir aðalrétt, eftirrétt, bjór og rauðvín. endaði í 24.000 forintum og hefði þetta verið á íslandi, þá hefði þessi tala verið þá 24.000 kall, en þarna þarf maður að DEILA með 3, svo að kvöldverðurinn endaði í 8000 kalli fyrir tvo!
Eins varð það fyrr um daginn, ég sá leðurjakka í C&A á 34.800 forintur deilt með 3 og niðurstaðan var sú að ég fékk flottan jakka á 11600 kjell og geri aðrir betur!
Þetta var fín ferð í alla staði, nema að allt of stuttur tími, mánudagurinn fór í heimferð. Við höfðum t.d. ekki tíma til að fara Búda megin í borgina, þ.e. uppá hæðina, þar sem kastalarnir og flotta fólkið býr í Búdapest. Næst reynir maður að gefa sér lengri tíma til að skoða borgina betur.
En þennan sáum við á einu götuhorninu, Trabant í svona svaka flottu ástandi :)
Þar til næst
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
þú hefur semsagt komið uppstrílaður og saddur heim ...... maður þyrfti eiginlega að eiga svo sem einn hraðprant á hlaðinum heima.. he he
Margrét M, 8.11.2007 kl. 09:08
maður sá nú nokkra en þessi var í góðu standi og "bónaður"
Bragi Einarsson, 9.11.2007 kl. 23:48
Trabbinn er klassi
Ólafur fannberg, 12.11.2007 kl. 07:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.