Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Nýárskveðja

Gleðilegt nýtt ár!

Blogg, blogg, blogg, blogg!!


Gleðileg jól

Gleðileg jól!

Sjáumst vonandi á nýju ári.


Loksins-Ferðasaga

Þá er loksins komið að ferðasögunni frá Budapest. þó svo að liðið er á þriðju viku frá því ég fór, þá varð það nú svo að vikan eftir að ég koma heim, var allt á haus hjá mér í vinnu, svo lagðist ég í Pest, heilir 4 dagar þar og svo bara að vinna upp skammir eftir veikindi. Loksins get ég gefið mér tíma til að blogga smá og setja inn nokkrar myndir úr ferðinni.

listasafn
Þar sem þetta var  flug seinnipart föstudags og heimför var á hádegi á mánudag, fengum við hjónin ekki nema 2 heila daga út úr ferðinni. Komið var á hótelið um miðnætti á Ungverskum tíma (10 hér heima) svo að það var farið beint að sofa! En dagskráin næstu tvo daga var þétt skipulögð og var vaknað eldsnemma á laugardagsmorgun og morgunverður snæddur. Lá leiðin eftir allar kræsingar í jarðlest og stefnan tekin á listasafn eitt þeirra Budapesta, Museum of Fine Arts, en það er staðsett á Hetjutorginu Pest megin í borginni. Eyddum við þar einum 3-4 tímum og þáðum ferð með gömlum hippa frá LA sem var þarna að gæda um salina, þrælskemmtilegur kall, með tagl og alles. Fór hann með okkur í gegnum 19 aldar listina sem safnið átti. Nöfn eins og Corbert, Manet, Monet og fl. komu þarna við sögu.

hetjut2


Eftir listasafnið ætluðum við að finna búð sem ein vinkona mín sagði mér frá og fór nú dágóður tími í að finna út hvar sú búð var, en ástæðan fyrir því var sú að þessi tiltekna búð seldi vörur fyrir listamenn! Þrátt fyrir mikla leit fannst hún ekki, reyndar hefði það ekki skipt máli því að klukkan var orðin 5 þegar við loksins gáfumst upp. Þrátt fyrir það vorum við með fullt fangið af pokum, enda lenntum við á einhverri götu þar sem verðið var eins og á íslandi á 19 öld!
Um kvöldið var farið í siglingu á Dóná, matur, tónlist og söngur og vín, allt innifalið í ferðinni. Matur, vín og tónlist; 8 af 10 möguleikum; Söngur, ja eins og unga fólkið segir bara; Díöss kræst mæ God! Þvílíkir skrækir! Samt var þetta indisleg stund og komið heim á hótel um miðnætti og farið að sofa, því að um morgunin var áætlað að fara út fyrir borgna og skoða þorp þar sem handverks- og listamenn hafa songurkomið sér fyrir og er vinsæll ferðamannastaður. Þar sáum við meðal annars örlistasafn, en þar var t.d. taflborð á títuprjónahausi og urðum við að skoða verkin í gegnum stækkunargler. Eftir skoðunarferð um þorpið fékk hópurinn sér að borða og auðvitað fengum við okkur ungverska gúllassúpu og þvílíkur réttur. Aldrei bragðað eins góðan graut um æfina. þarna fann ég svo verslun sem seldi málningavörur og verlaði mér slatta af penslum og litum.
Um kvöldið fór hópurinn á veitingahús þar sem boðið var uppá þjóðrétti og sígaunatónlist og verð ég að segja að verðlagning þeirra í Pestinni er stórskrítinn. Það sem ég og frúin borguðum fyrir aðalrétt, eftirrétt, bjór og rauðvín. endaði í 24.000 forintum og hefði þetta verið á íslandi, þá hefði þessi tala verið þá 24.000 kall, en þarna þarf maður að DEILA með 3, svo að kvöldverðurinn endaði í 8000 kalli fyrir tvo!
Eins varð það fyrr um daginn, ég sá leðurjakka í C&A á 34.800 trabantforintur deilt með 3 og niðurstaðan var sú að ég fékk flottan jakka á 11600 kjell og geri aðrir betur!
Þetta var fín ferð í alla staði, nema að allt of stuttur tími, mánudagurinn fór í heimferð. Við höfðum t.d. ekki tíma til að fara Búda megin í borgina, þ.e. uppá hæðina, þar sem kastalarnir og flotta fólkið býr í Búdapest. Næst reynir maður að gefa sér lengri tíma til að skoða borgina betur.

En þennan sáum við á einu götuhorninu, Trabant í svona svaka flottu ástandi :)

 

 

Þar til næst 


Ferð til Búdapest

Snögglega var tekin ákvörðun sl föstudag, frúin "ákvað" að fara með mig til Búdapest! Smá tilhlökkun að vísu, en mér leiðast flugferðir, alltaf gaman þegar komið er á staðinn, en bið og þrengsli í flugvélum er ekki minn tebolli, ef þið skiljið hvað ég meina Whistling
Búdapest er heiti á borg í Ungverjalandi og var áður fyrr tvær borgir sitthvorum megin D'onár, og hétu Búda og Pest. Ekki veit ég hvort að það sé einhver pest þeim megin og hvort að menn séu almennt búddatrúar hinum megin, en mig hefur alltaf langað til þessarar borgar. Farið verður seinnipart föstudags og komið heim á mánudagskvöld. Frúin er búin að skipuleggja fyriri mig ferð í listasafn, á meðan hún ætlar að skoða C&A og fleiri kvenvæna staði, á meðan ég svelgi í mig listina. Saman ætlum við að fara á siglingu á Dóná og borða glæsiverð og það verður farið í ferð í eitthvert listamannaþorp fyrir utan Búdapest. Tel að það verði bara ansi skemmtilegt.
Það hefur verið mikið að gera hjá mér í vinnunni og hinni vinnunni. Er að klára námskeið á fimmtudag og byrja svo sjálfur með námskeið 26. okt. Hef líka verið að dunda við að hanna utan um geilsadisk sem á að koma út í nóvember. ÞEtta hefur verið til þess að ég hef ekki gefið mér tíma til að taka almennilegar myndir að málvekunum til að setja inn á bloggið. Vonandi fyrirgefst mér það.

En þar til næst!


Harry Potter

Jess, búinn að lesa Harry Potter og the Deathly Hallows og niðurstaðan kominn! En ég ætla auðvitað ekki að segja frá hvernig henni lauk, þið verðið bara að lesa sjálf. (Eða bíða eftir myndinni, svona í 3 ár eða svo) Ég og fjölskyldan erum HarryPotter aðdáendur, eigum allar bækurnar bæði á ensku og íslensku og allar þær myndir sem komið hafa út. Fórum einmitt á Fönixregluna um daginn og skemmtum okkur ágætlega. Reyndar er Fönixreglan svo mikil bók og margt að gerast í henni að það var hreinlega ekki hægt að koma öllu fyrir í tveggja tíma mynd, að sjá myndina var eins og lesa bara 4ja hvern kafla eða svo! Ég kom strax með kenningu eftir að hafa lesið Blendingsprinsinn og sú kenning var rétt að mörgu leiti, en ég segi ekki meir Whistling. Þegar allar bækurnar hafa verið kvikmyndaðar, verður örugglega tekið maraþon á þeim í einum rikk. (haldið þið að það sé geðveiki, ha!)

Þessi bókaflokkur, ásamt Lord of the Rings hafa meðlimir fjölskyldunnar lesið spjaldanna á milli og sumir oftar en tvisvar. Einu sinni á ári, um jólin, er tekið StarWars og LOTR maraþon en eini gallinn á því er að við verðum að kaupa okkur fyrstu þrjár myndirnar, (sem er í raun kafli 4, 5 og 6) á DVD, því að gamla VHS tækið gaf upp öndina í vor og svo verðum við að redda okkur fyrstu HP myndina, en  við eigum hana á VHS en hinar á DVD. Lordinn eigum við auðvitað í sér útgáfu frá framleiðanda.

Ég setti inn nýjar myndir úr ferðalaginu, undir Myndaalbúm, WildWest, þetta eru nokkrar valdar myndir.
En nú fer skólinn að byrja og lætin byrja á föstudag og sumarfríið búið,og þvílíkt blíðusumar, barasta sól og blíða alla daga, enda var það ekki fyrr en í lok júlí sem ég fór á flakk, en þá byrjaði einmitt að rigna hér á Reykjanesinu.

Þar til næst. 


Kominn heim í heiðardalinn!

Jæja, þá er mar kominn heim aftur eftir 10 daga flakki um Westfirði að norðanverðu. Súðavík, Ísafjörður, Hnífsdalur, Bolungarvík, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Hrafnseyri! Ekkert nema keyrsla inn fjörð og út aftur og inn  og út og...
Alveg endalausir fjarðarbotnar, skil ekki hvernig nokkur nenni að búa þarna, sérstaklega á veturna. En fallegt er þarna, sérstaklega í Dýrafirðinum, en við áðum að Núpi og skoðuðum  skólahúsin og Skrúð, en þar hafði einhver frumkvöðull skrúðgarðaræktunar byrjað að planta niður trjám og plöntum.  Ætla næstu daga að far yfir blokk og setja inn myndir úr ferðalaginu, hreinlega nenni því ekki núna í augnablikinu.

Þegar það átti að fara að þvo eftir ferðalagið, tók þvottavélin upp á því að gera tilraun til að hengja upp þvottinn sjálf! Það gaf sig víst lega aftan á tromlunni og vélin tók að dansa eftir þvottahúsgólfinu og var hamagangurinn slíkur, að hún hoppaði breidd sína og hreinlega lokaði inngöngu inn í þvottahús! Þar sem ég sat á brókinni í eldhúsinu að klára Special K og blaða í Fréttablaðinu, varð frúin að hlaupa út og bakvið hús, til að komast inn þvottahúsmeginn til að slökkva á vélarskrímslinu! Þurrkarinn var ofan á vélinni og var dottinn niður á gólf og hindraði einnig inngöngu þeim megin, en að lokum tókst að drepa kvikindið! Þ.e. slökkva á þvottavélinni (dálítið undir áhrifum á myndinni Transformers, en ég var að koma úr bíó með gaurunum) En það er komin ný vél í þvottahús, því að sú gamla var dæmd ónýt, þar sem það myndi kosta um 25 þús. kall að laga ferlíkið og þá var alveg eins gott að splæsa á nýja. Sú gamla hefur líka þjónað okkur í 8-9 ár (blessuð sé minning hennar) og er að vona að nýja Símenns tæknin toppi þann tíma. Sú nýja er svo hljóðlát miða við þá gömlu, að við erum alltaf að athuga hvort hún sé í gangi, svo lágt heyrist í henni, svei mér þá!


Fjallaferð...

HPIM3892

 

... á nýja jepplingnum! Hann bara reyndist vel nýji KIA jeppinn, þegar ég og frúin fórum yfir Kjöl um helgina. Helgina þar áður fórum við í Fljótshlíðina og í báðum þessum ferðum var hann að eyða ca 7,9 - 8,1 ltr á hundraðið! Bara nokkuð gott það, held ég. ég hafði aldrei farið Kjöl áður og eftirvæntingin því nokkur, fjallasýn góð, en fékk í staðin rykmökk og moldarfjúk yfir okkur. Enda ekki fallið dropi úr lofti í margar vikur, eða þannig. Vegurinn var skelfilegur Byskupstungna meginn en fínn þegar við komum í Húnavatnsýsluna, enda Blöndulón þar staðsett. Hveravellir, jæja, hef séð nokkra hverastaði og persónulega fannn ég ekki fyrir miklum áhryfum af staðnum. En Hveravellir eru víst merkilegir fyrir þær sakir að vera ein heiti staðurinn  á þessu svæði, næsti er þá Geysir. OK, Krísuvík heillaði mig eiginlega meira! Myndin sýnir Kerlingafjöll, hálf nakin af snjóleysi en nokkuð tignarleg.  Þegar komið var norður fyrir, var stoppað stutta stund við Blöndulón og farið út. Það var hreinlega skítkalt, miðað við hitan sem var á Geysi og á Hveravöllum. Enda sagði vinkona okkar á Hvammstanga, að það hefur verið síðustu daga skítakuldi og í fréttunum áðan var sagt frá því að hiti hafi farið niður í frostmark í nótt!
Semsagt, flíspeysan var tekin fram, þegar farið var út úr bílnum, fínt gluggaveður og alles. Eða svo fínt Suðurnesjaveður, eins og við hér á tánni höfum undanfarin ár þurft að þola, sól, hvöss norðanátt og hiti aldrei yfir 8-10 gráður mestan part sumars, slefaði yfir í 12, ef það var rigning! En hvernig er það, átti alltaf að vera sól og blíða fyrir norðan á sumrin? Allavega hefur það verið í minningunni að ekki var hægt að opna fyrir fréttir á RUV eða í hljóðvarpi, að ekki var minnst á einmuna veðurblíðu á Akureyri. Je, righ! Var á Akureyri í viku fyrir tveim árum og það hefur aldrei rignt eins mikið og það sumar. Kom nú úr kafinu, eftir miklar yfirheyrslur á heimamanni og einum Jack Daníels seinna, a' það væri nú ekki alltaf endalaus sól þarna fyrir norðan, en þegar hún kæmi, væri talað um það í fréttum, sérstaklega ef það væri rigning í Reykjavík. En eins og allir vita er Reykjavík nafli alheimsins, hvað veður varðar Devil

 


Lokasmiðshöggið

Jæja, þá er nýtt þak og nýr kassi komin á húsið og búinn að bera á kassann líka! Samtals hefur þessi vinna tekið 3 heila daga og geri aðrir betur, eða þannig! Þarf bara fyrir haustið að setja flasningar á þakið og þá get ég sofið rólegur í rokinu í vetur. Þegar kassinn var rifinn, var tekin ákvörðun að skipta yfir á Símann með sjónvarpið, enda var örbylgjan eins og alkul stundum við ákveðin veðurskilyrði. Allt annað líf núna, þarf bara að skila Digital afruglaranum. Gamla loftnetið er komið í skúr og ef einhverjum vantar örbylgjuloftnet, látið mig vita.

Sýningin hefur gengið mjög vel, búinn að selja 8 myndir, bara góður árangur það, þykir mér. Núna er ég að dunda mér á nýja staðnum og er þegar farinn að skipuleggja alveg nýja línu í málverkinu, hættur að mála gamla kofa nema eftir pöntunum!

Dóttir mín og vinkona hennar hafa gert víðreisn undanfarnar vikur, flakkað á norðurlöndum, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Slóveníu og Þýskaland. Og hvar haldið þið að þær eru núna? Í grenjandi rigningu á Hróaldskeldu! Þær gáfust reyndar upp á því að liggja í tjaldi og tóku nokkrar sig saman og tóku á leigu tvö herbergi í Köben og flakka um með lest á milli, enda ekki nema hálftímaferð með lest frá Köben til Hróaldskeldu. Vonandi fer nú að hætta að rigna, enda er allt á floti þarna, vatn og drulla upp á miðja kálfa og hvergi hægt að tilla sér til að hlusta á tónleika. Öll stígvél á Sjálandi seldust upp á hálfum degi, pollagallar, ponsjó líka! Dísess, þá segi ég nú bara, heima er best, enda búið að vera Kosta del veður hér á klakanum í 4 vikur samfellt, á meðan allt er á floti í Evrópu. En það er víst byrjað að dropa hérna á Suðurnesjum, en ekkert í líkingu við þarna í Danmörku.


Sólseturshátíðin

Vá, mar! Aldrei hefur maður upplifað aðra eins veðurblíðu og var um helgina á Garðskaga á Sólseturshátíð. Strax á fimmtudeginum voru komin fellihýsi og tjöld og á föstudeginum streymdu inn húsbílar og hjólhýsi svo að tjaldsvæðið var nánast fullt. Sýningaopnunin tókst bara vel, um 3ö gestir skráðu sig í gestabókin á tveim tímum og þegar ég taldi í dag, hafa um 300 manns skráð sig í gestabókin. 7 myndir seldar af 20, bara nokkuð gott á fyrstu tveim dögum! Og hálfur mánuður eftir Smile

Hátíðin tókst í alla staði vel, smá tæknileg vandamál með CD-spilara og þess háttar en ekkert sem ekki er hægt að laga næsta ár. Ef ég ætti að skjóta á gestafjölda sem fóru um svæðið þessa helgi, þá hafa gestir verið vel á 4 þúsundin, og þeir sem voru allan tíman, þ.e. tjaldbúar, um 700. Heimamenn voru duglegir að tjalda, en kannski ekki allir sem gistu kannski, enda stutt heim í hlýtt rúm, en slatti var það sem sat úti um nóttina í blíðunni, sungu og trölluðu. Og vitið þið bara hvað? Það var engin önugur nágranni sem vældi yfir því að geta ekki sofið fyrir söng og gleðskap, eins og maður hefur upplifað á hinum "stærri" tjaldsvæðum landsins. Ég setti nokkrar myndir inn á Myndaalbúm undir Sólseturhátíð 2007, ef þið viljið skoða.
Það var einhver gestur í stríðnispúka kasti, því að í gærkveldi þegar ég kom aftur á svæðið eftir grillið heima, tók ég eftir því að ein myndin var horfin af veggnum!!! Ég gjörsamlegast trompaðist, því að það kom einmitt fyrir í fyrra að einhver óprúttin aðili hreinlega stal einu tréskurðarverki og hefur aldrei sest síðan á almannafæri. Ég lét vertann vita og stúlkuna í afgreiðslu Byggðarsafnsins, en hún sagði að allt væri tekið upp og hægt væri að skoða upptökur eftir helgina. Mér leist ekkert á málið. Þar sem ég stóð fyrir frama auða svæðið, þar sem myndin átti að vera, datt mér í hug af einhverju rælni að kíkja í kompu þarna við hliðina og viti menn! Var ekki myndina þar stillt upp við vegg ofan á frystikistu!! Sjúkkitt, mar!
Jæja, allir skemmtu sér vel og lokaatriði hátíðarinnar var svo brenna um kl. 10:15 og logaði nokkuð glatt í timbrinu eitthvað fram eftir nóttu. Sólarlagið var fagurt og frítt og engin áföll, nema hjá þeim sem létu taka sig fyrir of hraðan akstur í gegnum bæinn!
Þeim var nærDevil


Bakverkir og pungsveittur!

Jæja, við feðgarnir höfðum það af í kvöld að flytja allt dótið úr gömlu vinnustofunni og í þá nýju. Þvílíkur munur verður þetta, ha! Helmingi stærra pláss. Smá óskostur eins og er, því að flutningur fyrirtækisins sem var í húsinu brá svo skjótt að að þeir eru ekki búnir að þrífa almennilega eftir sig, þannig að það er smá saltdaunn yfir öllu en það er til bóta, en það var unninn saltfiskflök í húsinu. En kaffistofan er fín, flísalagt gólf og fínt. Ég byrjaði á því í morgun að sópa og skúra og aðeins að þrífa mesta skítinn áður en ég færi að bera inn draslið mitt og þvílíkt drasl getur fylgt manni, ég legg ekki meira á ykkur! Enda var líka gott að koma heim og fara í góða sturtu eftir allan svitann Cool En ég verð víst að fjárfesta í hillum undir bækur og annað dót.
Næstu dagar og vikur fer í það að raða öllu upp áður en maður getur hreinlega farið að vinna í myndum aftur. Enda er það allt í lagi, sýningin mín er tilbúin, set hana upp á föstudagsmorgun. Það ætti að duga. Verð svo að hlaupa heim í sturtu og gera myndalista, því að ég vil hafa listann í númeraðri röð, eins og ég hengi upp myndirnar. Finnst stundum leiðinlegt að koma á sýningar þar sem númerin eru "hist og her".

Seinni partinn í júlí fer ég og mín spúsa (og gaurarnir auddað) til Súðavíkur og verðum þar í viku. Okkur áskotnaðist íbúð þar til leigu í viku og á áætlun er að keyra svolítið um og taka myndir. Auðvitað verður vatnslitablokkin og eða pastellitirnir með í för, því ekki nenni ég að draga með mér olíulitina. Fer allt of mikið fyrir þeim. Reyndar er það draumur minn að eignast góðan ferðabíl, rútu, sem ég get haft svefnaðstöðu og vinnuhorn, þar sem ég get verið að mála. Fínt að hafa frúna með til að laga kaffi og svoleiðis, hahaha! Ég sá einhverstaðar svona bíl þar sem eigandinn var búinn að innrétta bílinn þannig að aftast gat hann staðið við trönur eða setið við borð og málað það sem hann sá út um stórann glugga aftast á bílnum. Miðsvæðið var svo svefnaðstaða og eldunaraðstaða, kamar og flott. Maður þarf eiginlega meirapróf til að fá að keyra svona bíl.

Það er gert ráð fyrir bara góðu veðri næstu helgi og vonandi gengur það eftir. Hundleiðinlegt að halda útiskemmtun í roki og rigningu.

Þar til næst. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband